360° myndatökur – stórt skref í átt að tímasparnaði og hagkvæmni

360° myndatökur - stórt skref í átt að tímasparnaði og hagkvæmni


JTV tók nýverið í gagnið nýja tækni í myndatökum á verkstað. Um er að ræða 360° myndatökur með þar til gerðri myndavél en úr verða yfirlitsmyndir á sama formi og Google Street View 360° myndirnar sem við þekkjum í dag. COVID-19 faraldurinn var eitt af því sem ýtti undir þessa nýbreytni hjá JT Verk en hann kallaði á að færra fólk væri á verkstað hverju sinni.


„Við framkvæmdir er mjög mikilvægt að allir hlutaðeigandi viti stöðuna. Það þarf að vera hægt að staðfesta að framkvæmdin sé í lagi, að verkið sé á áætlun, hvað sé búið o.s.frv. Eins þarf oft að skoða einstakar útfærslur nánar og fleira. Það er líka mikilvægt að geta séð aftur í tímann hvernig framkvæmdinni var háttað því það reynist erfitt þegar búið er að loka öllum veggjum og loftum,” segir Jónas Halldórsson, framkvæmdastjóri JTV. 


Það er mikið í húfi þegar kemur að byggingum og framkvæmdaverkefnum. Oft á tíðum eru þetta stór verkefni og mjög kostnaðarsöm sem þýðir að ef upp koma deilumál geta þau numið háum fjárhæðum. Með því að beita reglulegum 360° myndatökum til að staðfesta ferlið skref frá skrefi er því hægt að halda enn betur utan um hvernig staðið var að hverju verki fyrir sig, hver bar ábyrgð á því, hver tók það út, hvaða teikningar voru í gildi þegar það var unnið og svo mætti lengi telja. 


„Þessi tækni gefur líka eiganda verksins góðan aðgang að mikilvægum gögnum eins og upplýsingum um staðsetningu lagna og búnaðar. Segjum til dæmis að það þurfi að gera breytingar á einhverju rými. Þá getur skipt sköpum að sjá nákvæmlega á mynd hvernig það var byggt“ bætir Jónas við.

 

Allt frá því að myndatökur urðu mögulegar hafa verið teknar myndir af framkvæmdum. Með tilkomu stafrænna myndavéla og samhliða hraðri þróun á þeim fjölgaði myndunum til muna og núorðið er það ekki óalgengt að teknar séu þúsundir mynda í einu verki. Að halda utan um allar þessar stafrænu myndir getur reynst krefjandi og oft á tíðum seinlegt að finna nákvæmlega myndina sem leitað er að. Þess vegna er óhætt að segja að 360° tæknin sé stórt skref í átt að tímasparnaði og aukinni hagkvæmni við byggingarframkvæmdir. Ef teknar eru 360° myndir reglulega minnkar einnig þörfin fyrir viðveru ýmissa aðila á verkstað og möguleikinn á fjarfundum, þar sem farið er yfir stöðuna á skilvirkan hátt með aðstoð myndanna, opnast. 


„Ég er viss um að 360° myndir og fjarfundir séu það sem koma skal í okkar fagi, þar á meðal fjarfundagerðir sem eru netupptökur af fundinum sem hægt er að nálgast síðar sem viðhengi inni í verkefnastjórnunarforritinu. Allt eykur þetta skilvirknina og minnkar kostnaðinn sem er náttúrulega alltaf megin markmiðið hjá okkur” segir Jónas að lokum. 

30 January 2025
Nýr og endurbættur vefur JTV er kominn í loftið. Opnunin er stór áfangi en undanfarna mánuði höfum við lagt mikla vinnu í stefnumótun og endurmörkun á útliti fyrirtækisins. Vörumerkið endurspeglast nú vel í nýju útliti, markaðsefni og á vef.
25 September 2023
Max salur Smárabíós, sem býður upp á Flagship Laser 4K og Dolby Atmos, hefur slegið í gegn. Með breytingunum er Smárabíó orðið eitt af bestu bíóum í heimi og það eina sinnar tegundar á landinu.
25 September 2023
Vönduð kostnaðaráætlun skiptir máli Jónas Halldórsson, framkvæmdastjóri JTV, segir að fyrirtækið byggi á langri reynslu úr framkvæmdageiranum, þar sem meðal annars gerð og eftirfylgni kostnaðaráætlana sé veigamikill þáttur. „Með áætlun sem byggð er á þekkingu og reynslu minnka líkurnar á óvæntum uppákomum í ferlinu,“ segir hann og bætir við að gerð kostnaðaráætlana sé vandasamt verk.
Sjá allar fréttir